Saturday, December 6, 2008

„Tough love“ segir Kaninn

Nú er kominn desember og ég hef ekkert bloggað hér lengi. Ætla að reyna, er farin að blogga útum allt. Sit hér ein og sauma, nei, bara djók. Við erum að passa Freyju sem kallar sig stóru systur því hún á von á lítilli systur eftir nokkrar vikur. En semsagt, stóra systir er farin að sofa og er búin að pússa stígvéli og setja í gluggann svo St.Nikulás hafi ílát til að setja í í nótt þegar hann kemur í heimsókn.
Þýska hefðin er að Nikulás setur bara einu sinni í skóinn og hann setur kartöflu eða kol hjá börnunum sem voru óþæg, en ávexti og sælgæti hjá þeim þægu.
Konur sem ég þekkti í Þýskalandi sóru fyrir það og sárt við lögðu að þær höfðu látið kartöflu í skóinn hjá börnum sínum, ef þau höfðu verið óþekk! Ég átti bágt með að trúa þessu, alla vega held ég að við meðvirkir Íslendingar kennum börnum okkar ekki fljótt muninn á orsök og afleiðingu.
„Tough love“ kallar Kaninn þetta.

Tuesday, March 18, 2008

Hlaupabóludagar hjá ömmu

Carólín Freyja er prinsessa í dag og ósköp róleg.
Hún fékkst ekki í myndatöku nema hafa hestinn með. Hún veit að hún hefur oft verið fallegri og ömmu finnst hún vera soldið tröllabarn.

Monday, March 17, 2008

Sunnudagur til sælu

Yndislegur dagur. Hlaupabólu-Freyja fékk að hjóla smávegis út'á gangstétt með pabba sínum. Hún var búin að gleyma hvernig hjóla á á tvíhjóli enda æði langt fyrir nýorðna 3ja ára sem hefur ekki hjólað síðan í haust.
Sú stutta stjórnaði öllu í dag, hjálpaði ömmu sinni bara smá að hræra í salat, sem hún svo neitar að borða.
Öðru gegndi um súkkulaðið sem þær bjuggu til from skrats: hún hrærði og hrærði, smakkaði á öllum stigum og í lok dags var ekki séns að bjóða henni súkkulaði.

Reyklaus í 5 vikur

Úfff. Það er vont en það venst, lífið er að skána, er að venjast nýja lífinu, hætt að brenna peninga.

Sunday, March 16, 2008

Skiptir útlit fréttamiðla máli?

„Er ekk'allt í lagi?“ er ný bloggsíða þar sem fjallað verður um meðvitaða og ómeðvitaða útlitshönnun fréttamiðla.
Hér verður bara venjulegt, ófaglegt nöldur.

Friday, March 14, 2008

Er þetta frétt, tilkynning eða auglýsing?

Neytendavaktin er framarlega í 24 stundum.
Það er tvídálkur neðst á síðu og þar er alltaf mynd af manneskju og nafnið hennar með.
Ég skil aldrei þennan dálk! Hvað er þessi manneskja að gera þarna? En þegar Jóhannes birtist sjálfur þá fatta ég loksins: ókei, þetta hlýtur að vera manneskja frá Neytendasamtökunum.

Er myndbirtingin til þess gerð að segja okkur að starfsmenn blaðsins vinni ekki upplýsingarnar sjálfir? Eða er þetta auglýsing?

Vantar dagsetningu?

Af hverju er engin dagsetning á baksíðum fríblaðanna?

Lunknir kaupmenn

Kaupmenn eru lunknir að staðsetja vörur á ýmsa staði í verslunum og það borgar sig bókstaflega að fara vel södd, óþreytt og ekki á hlaupum að versla smálegt.

Ég fór í Hagkaup í Spönginni í dag til að kaupa gjafapappír og merkispjöld. Í gjafavörudeildinni var sérstakur standur með fjölbreyttu pakkaskrauti á og í boxi þar við var heilmikið af gjafapappírsrúllum. Á boxinu stóð handskrifað 320 kr. Ég hef ekki hugmynd um eðlilegt verð á gjafapappír en vel mér þarna 4 rúllur.

Ég held síðan áleiðis að kassa til að borga og tek þá eftir gjafapappír sem er í boxi við greiðslukassann. Í forvitni minni (eða árvekni) skoða ég verðið þar og er það 499 kr. Þá var spennandi að sjá að minna var á þessum rúllum en þeim sem ég hafði valið mér.

Ég ávarpaði konu sem var að velja sér pappír og sagði henni frá því að ódýrari pappír með meira á rúllunni, væri að finna rétt handan við hornið. Hún þakkaði mér og ég fór að kassanum og fannst það sniðugt af kaupmönnum að hjálpa kúnnunum, sem hafðu kannski gleymt svona mikilvægum hlut eins og gjafapappír og geta þá gripið með sér þegar beðið er í greiðslukassaröðinni. Að vísu nærri 200 kr. dýrari !

Sem ég er að velta vöngum yfir þessu ákveð ég að taka eftir því hvað stimplast inn á kassann og sé að nú á að rukka 499 kr. fyrir rúllurnar. Ég mótmæli, minnug þess að hafa nýlesið í dagblaði hvatningu frá Neytendasamtökunum til fólks að bera saman hilluverð og kassaverð, en hilluverð á að gilda. Stúlkan (ca 13 ára) sem stóð við kassann, hringdi strax og þá kom örlítið eldri stúlka og reyndi að hjálpa henni að leiðrétta á kassanum. Tókst ekki og hringdi í karlmann (u.þ.b. 30 ára) sem kom og setti sig inn í málið, gáði að verðinu á boxinu handan við hornið, kom svo og leiðrétti á kassanum og þakkaði mér fyrir að hafa látið vita af mistökunum ! Ætla framvegis að versla í rólegheitum og gá hvað unglingarnir eru að gera.

Gleymdi að kaupa Moggann

Ég gleymdi að kaupa Moggann fyrir jólin. Líka í fyrra. Ég man eftir því þegar ég fletti fríblöðunum og finn ekkert skemmtilegt að lesa. Skemmtilegt þykir mér að lesa viðtöl við fólk sem ekki hefur verið í fjölmiðlunum á árinu.

Fríblöðin bjóða uppá endalausar, innihaldslitlar frásagnir af ungu og fallegu fólki sem er virkilega smart. Og ég skanna myndir og fyrirsagnir og hef engan áhuga á lesningunni.

Ég held þetta sé þrá eftir þjóðlegheitum; gamaldags rómantík um jólupplifun bernskunnar.

Stóri bróðir kom með bók frá mömmu fyrir mig og ég gleypti í mig spennusögu Þráins: Englar dauðans. Las hana í tvennu lagi og fannst góð. Ég fékk enga bók í jólagjöf, er svo löngu búin að segja mig úr samfélagi jólagjafa, fæ samt nokkrar (sem mig langar ekki í og nenni ekki að skila). Hef þá skoðun að jólapakkar séu fyrir unga og gamla fólkið en ekki þá sem kaupa sér sjálfir það sem þá langar í. Þess vegna fæ ég jólabækur að láni þegar mamma er búin að lesa þær. Það gefur okkur líka tækifæri til að ræða saman um efni bókanna.

Náðargáfan lesblinda datt inn til mín og er frábær lesning með brilljant hugmyndir. Þessa bók ættu allir kennarar að lesa. Nemendur eru svo misjafnir einstaklingar og auðvelt að gleyma því í önnum dagsins og námsgagnagerðinni að þeir þurfa fjölbreytta nálgun svo þeir eigi allir möguleika á að skilja miðaldra kennara sem talar fagmál og hefur ekki hugmynd um það !

Thursday, March 13, 2008

úps

Þessi skemmtilega og frábærlega vel prentaða mynd var í mogganum um daginn. Ég er Reykvíkingur, þekkti umhverfið og stöðvaði brásið í gegnum blaðið. Fannst forvitnilegt myndefnið en þar eru stórvirkar vinnuvélar að grafa í Öskjuhlíðinni. Ég las því allan textann sem fylgdi myndinni en endaði í lausu lofti og með spurningar í höfðinu: Hvaða háskóli er að byggja þarna? Í textanum er bara sagt frá háskóla sem byggir þarna og svo er sagt frá byggingarfyrirtækinu. Í gegnum huga fávísrar konu flaug: Bifröst, HÍ, HR?

Opnu spanderað á lesendur

24 stundir er rausnarlegt blað. Þar er spanderað heilli opnu í fréttahluta blaðsins undir efni. (Fréttahluti er sá hluti blaðs sem er fyrir framan miðju.)
Íslendingar eru ekki vanir því að fríblöðin taki hægri blaðsíður úr fréttahlutanum undir efni því það eru heitustu auglýsingasíðurnar.
Þessi opna, sem er ca bls. 14–15 eða 16–17, inniheldur leiðara blaðsins, Halldórs-teikningu, klippt og skorið, álit, viðhorf og bloggtexta.
Bara það, að fá að lesa efni á heilli opnu (þó eru auglýsingar útmeð kanti), gerir það fyrir mig að ég les allt sem stendur á síðunni. En þegar góðu efni er skutlað á eina blaðsíðu er eins og kona þurfi að flýta sér og auðvelt að fletta án þess að lesa meira en fyrirsagnir.
24 stundir eiga þakkir skilið fyrir að sýna alvarlegra efni þá virðingu að birta það á opnu.